Að komast til jafnvægis.

Að komast til jafnvægis.

Það er margt á misskilningi byggt því það eru margir þræðir margra samverkandi þátta sem flæða um verund okkar í misjöfnum tónum, tifi og takti. Allt frá reglubundnum hreyfingum á litlum sem engum hraða til óreglubundinna hreyfinga á hinum mesta hraða, og allt þar á milli, þvers og kruss á eins misjafnan máta og samsetningarnar bjóða upp á en alltaf þó eftir þeim eðlisfæðilögmálum sem heimurinn byggist á.

Til að átta okkur á hvernig okkar eigin tilfinningaorka er og hvar við erum staðsett samkvæmt lögmálum hennar þurfum við að líta í eigin garð og fikra okkur í þá átt að fara að kafa inn á við, inn í eigin tilveru, tilvist og tilfinningar. Þar verðum við kanna og skoða það sem við finnum til að átta okkur á hvar við erum stödd svo við getum farið að spyrja okkur hver við í raun erum, hvaðan koma áhrifin sem móta athafnir okkar, persónuleikann, tilfinningar okkar og hvort við séum sátt við það sem við finnum.

Þar sem reynslan leggst misjafnt á einstaklinga eru það margir samverkandi þættir sem hafa áhrif á hvernig þeir taka á henni og hver tilfinningaviðbrögð þeirra verða. Það fer eftir því hvar þeir eru staddir er reynslan hendir þá, hvar leið þeirra hefur legið og hverjum þeir hafa verið samferða, hver staðsetning þeirra hefur verið við tilteknar aðstæður og hvaða skilning þeir hafa á fyrri upplifunum.  Persónuleiki okkar saman stendur af mörgum misjöfnum þáttum, það er enginn sem skilur fullkomlega afstöðu okkar til lífsins, atburða né annarra, þess vegna erum við þau einu sem getum unnið úr persónulegri reynslu okkar sem gerir okkur að einstökum einstaklingum. Þess vegna verðum við að finna okkar eigin leið í að leita jafnvægis því við erum þau einu sem getum fundið réttu leiðina fyrir okkur sjálf, því enginn þekkir vanda okkar betur en við sjálf. Til að vita hvað við viljum, hvað hentar okkur best og hvað við getum gert verðum við að rýna í eigið sjálf, kafa ofan í saumana á okkar eigin tilveru og finna okkar eigin lausnir. Við getum deilt þeim með öðrum, hlusta á lausnir annara og föndrað okkar lausnir, sem henta okkur betur, upp úr þeim samhljómi og þeim stuðningi sem við hljótum. Þannig lærum við alltaf betur og betur að þekkja eigin takmörk, eigin persónu, eigið eðli, eigið sjálf og þar með eigin grunnorku, þannig getum við sem best unnið með okkar einstöku hæfni, sett þar með okkar mark á litbrigði lífsins og tekið virkan þátt í sameiginlegri framþróun okkar allra.

Við þurfum að gera okkur grein fyrir að tilfinningar tilheyra lögmáli flæðis, það er þær leitast alltaf við að flæða frjálst og í jafnvægi við umhverfið. Þannig getur umhverfið nært okkur ef það er í orkulegu jafnvægi, það er ef ekkert hefur raskað jafnvæginu innan þessa nærumhverfis. Allt líf styður við orku annars lífs. Er við liggjum á blómengi sem iðar af lífi plantna, skordýra, fugla og jafnvel spendýra, erum við í mjög næringaríku umhverfi sem gefur af sér ríka orkunæringu. Þess vegna þykir okkur alltaf nærandi að fara út í náttúruna, setjast í grasið, skoða eða rækta plöntur, skoða fjöll og grjót, sjá búdýr og villt dýr, eiga gæludýr, eiga vini að tala við aðrar vitsmunaverur osvfr. Því allt hefur sitt tif og sína útgeislun sem nærir viðkomandi lífveru og þar með þær lífverur sem fá að vera í þeirri útgeislun, eins og börnin sem leitast við að vera ávallt í kringum foreldra sína til að fá næringuna frá útgeislun þeirra með því einu að fá að vera þar.

Náttúrulegt umhverfi er það sem nærir okkur ávallt best ásamt gleði í góðum félagskap manna eða dýra. Þess vegna er besta leiðin til að byrja á sjálfsskoðun oftast það að fara hreinlega út að ganga í grænu umhverfi, og það er ekki verra að hafa góðan vin með. Það er því alveg jafn vert að kanna nærumhverfi okkar og orkulega næringu innan þess alveg eins og næringuna sem við innbyrðum í formi matar er við förum að huga að því að ná jafnvægi við okkur sjálf. Því er við hefjum ferðina til að leita jafnvægis verðum við að hafa eitthvað sem styður okkur og þá er best að finna eða skapa stað sem nærir okkur á meðan að við könnum eigin innri aðstæður þannig að umhverfið trufli okkur ekki heldur styðji okkur. Eins getum við fundið eða skapað nærandi samtal eða nánd við eina eða fleiri lífverur.

Er við skoðum eigin tilfinningar finnum við fyrir upplifanir í allavega ástandi sem gefa af sér allavega minningar, þær geta verið bæði léttbærar og/eða þungbærar. Við verðum bara að passa okkur á að virða það sem við finnum því allt er þarna af sinni ástæðu. Þess vegna ber okkur að taka okkur eins og við vorum í morgun og í gær, þar sem við vorum börn þess tíma, og læra að fyrirgefa okkur það sem okkur þykir að við höfum illa gert og þar með öðrum sem gengu og ganga enn með okkur. Við verðum að skapa okkur hlutleysi gagnvart sjálfum okkur og öðrum með því að leyfa okkur öllum að vera þeir einstöku einstaklingar sem við erum af okkar mjög mörgu misjöfnu ástæðum sem við höfum til að gera flesta hluti af okkar eigin misjöfnu forsendum. Og í stað þess að fordæma sjálf okkur og aðra fyrir að fara eftir þeim leiðum sem okkur voru boðnar, þá frekar að líta yfir farinn veg, sættast við fólk og atburði fortíðar, sleppa þeim og njóta þess að lifa í nútíðinni og að takast á við fólk og atburði líðandi stundar. Að njóta þeirrar reynslu og yfirsýnar sem fortíðin hefur gefið okkur og sjá hvert sú þekking hefur leitt okkur.

Sá þáttur sem getur stutt okkur til jafnvægis er að njóta hugmyndaauðgi þeirra sem hugsa út fyrir rammann, því það er þeim að þakka að við höldum áfram í framþróuninni, sjáum hlutina í víðara samhengi, og getum jafnvel bætt um betur. Það hefur nefnilega hver og einn sitt fram að færa til sameiginlegrar framþróunar okkar allra, þess vegna þurfum við að læra að lifa í sátt við eigið sjálf og læra að njóta eigin auðlegðar, sem er okkar einstaka upplifun, okkar einstaka reynsla, okkar einstaka ljósorka og að njóta þess að tifa eigin einstöku útgeislun í eigin þágu sem og annarra.

Hlutleysi er góður þáttur til að tileinka sér í viðhorfum til sjálfsins sem og annara. Er við förum að skoða allt út frá hlutleysi áttum við okkur á að það sem við túlkum sem slæma eiginleika eða ill öfl, neikvæðni og siðleysi er eingöngu orka í ójafnvægi sem spinnst út frá vanlíðan eða vannæringu tilfinningavera. Þessar verur hafa síðan tilheyrandi áhrif á orkuumhverfi sitt og leita oftar en ekki að jafnvægi og sefun sársuka síns með því að nærast á orku annarra, sérlega þeirra sem hafa næringaríkasta ljósið. Það er vont að lenda í ójafnvægi og oft skiljum við ekki hvað það er sem veldur, okkur finnst við verða minni, óstyrk, svikin, svívirt og leitumst frekar við fela ójafnvægið. Oftast er sannleikurinn of sár og þannig að við kjósum að ljúga að sjálfum okkur og finna léttbærari ástæður fyrir erfiðleikunum svo við getum haldið áfram. Að lokum erum við farin að skapa sýndarveruleika fyrir okkur og aðra til að getað komist í gegnum lífið, og allt samferðafólk okkar hættir að skilja okkur. Í samfélögum þar sem allir lifa sýndarlífi í sýndargleði og sýndarvelmegun skapast mikill misskilningur.  Misskilningur skapast við aðstæður þar sem við höfum ekki næga yfirsýn, þar sem ekki er tekið nægilegt tillit til takmarkana okkar eða þar sem sannleikanum er haldið frá okkur.

Engin er rangstæður án ástæðu

Reiði er viðbrögð við sársauka, það eru til misjafnar útgáfur af reiði og við tökumst misjafnlega á við reiðitilfinninguna. Reiði er öflug varnartilfinning sem hjálpar okkur að verja okkur og standa upp gegn mótlæti sem við upplifum gegn okkur en sérstaklega gegn öðrum. En er við finnum til reiði verðum við að nota kraftinn í reiðinni til að standa upp fyrir sjálfum okkur og þar með öðrum og stöðva vítahring óréttlætis, okkar vegna og annarra, með því að hafa sjálfsstjórn og leyfa ekki reiðinni að brenna okkur upp innan frá, því þá erum við enn sárari en ella og bognari ef eitthvað er.

Við græðum ekkert á að fordæma aðra því við erum þar með að fordæma okkur sjálf. Það getur enginn staðið upp fyrir okkur nema við sjálf þó svo að margir geti stutt okkur til þess, þetta getur verið mjög erfitt og mikil vinna sem krefst mikils undirbúnings. En það er líka gott að hafa eitthvað að sýsla, þá er gott að getað hlúð að sjálfum sér, eins og að hlúa að öðrum, eins og að hlúa að hlutum eða áhugamálum. En ef við byrjum einhverstaðar þá erum við fyrirmynd fyrir þá sem á eftir koma, getum bent þeim á lausnir og auðveldað þeim að hefjast handa.

Þó að það sé alltaf auðveldara að staldra við það sem allt er fallegt og við upplifum gleði og vellíðan, þá verðum við líka að kunna að takast á við sjálf okkur í erfiðum aðstæðum, þá getum við enn frekar hjálpað öðrum við bágar aðstæður. Því fegurð og ljótleiki eru tveir pólar í flæði sömu hringrásar og er þeir flæða saman í jafnvægi hættum við að greina upplifanir okkar í þá og skoðum frekar skilninginn sem við öðlumst er uplifunin minnir okkur á annan hvorn þeirra. Er báðir þættir eru í jafnvægi sjáum við þá sem eina óaðskiljanlega heild og þá áttum við okkur líka á að það er auðveldara að upplifa þessa póla saman heldur en eingöngu sitthvorn pólinn.

Það er sem svo margt er á misskilningi byggt, það sem við getum gert er að hjálpa hvert öðru að átta okkur á hver við í raun og veru erum svo við megum öll öðlast trú á sjálfum okkur og getum styrkt okkar eigin innri grunnorku. Þannig öðlumst við meiri kraft til að standa upp fyrir eigin ágæti og getum leyft öðrum að njóta síns eigin. Við höfum þar af leiðandi úr meiru að moða fyrir okkur sem og aðra á leið okkar í gegnum lífið. Því þegar tvær verur tala saman um kærleika er viðmið þeirra svo misjafnt að skilningur þeirra á orðinu kærleikur er nær því að vera allt annar. Mikið er til af fölskum kærleika og fáir vita hvað sannleikur er, hvað þá raunsannleikur og enn færri vita hvað raunkærleikur er. Þess vegna verðum við að finna eigin kærleika í gegnum eigin grunnorku og þar með eigin sannleika. Þá höfum við viðmið við eigið tif og ættum að getað leyft öðrum að lifa í þeirra eigin tifi, samhliða okkar og allir geta notið sín í einu, sem hópur sjálfbærra einstaklinga.

Gott fordæmi er sterkara en nokkur orð (Viktor E. Frankl)

Vinnan í átt til jafnvægis er að vinda ofan af reynslunni, greiða úr flækjum fyrri upplifana og leita leiða og lausna í eigin þágu.

Það sem allir vilja í raun vinna að, þó að það sjáist ekki á öllum og þó að margir hverjir séu rangstæðir, þá er raunin sú er litið er í hjarta einstaklinganna að allir vilja öðlast innri frið, lausna frá sársauka og sorg, að fá að vera það grunn ljós sem við upprunanlega erum og fá að njóta þess að lifa í jafnvægi við allt og alla.

Taflan Jafnvægi sýnir þá tilfinningaþætti sem við viljum vinna að til að komast til tilfinningajafnvægis, sem er stöðug vinna, en gengur upp með þrautsegju, þolinmæði, umburðalyndi og æðruleysi.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s