Mótlæti

Mótlæti

Mótlæti getur verið erfiðar aðstæður sem við þurfum að takast á við bæði í nær- og fjærumhverfi okkar eins og sjúkdómar, faraldrar, slys, eitthvað sem veldur okkur meiri erfiðleikum við söfnun lífsviðurvæðis en áður gerði. Dæmi um mótlæti við erfiðar aðstæður samkvæmt tilfinningaþáttunum er Framtaksleysi, Máttleysi, Doði, Kyrrstaða, Stöðnun, Sjálfselska, Ráðríki. Mótlæti frá umhverfinu í formi röskunar af einhverjum toga sem einskorðast við breytingar á viðkvæmu jafnvæginu innan vistkerfisins gæti verið útdauði tegunda, náttúruhamfarir, mengun og langtíma veðurfarsbreytingar. Dæmi um mótlæti frá umhverfinu samkvæmt tilfinningaþáttunum er Skortur, Vöntun, Þurrð, Hungur, Bjargræði, Ég verð, Fullnægja.

Ofbeldi er mótlæti sem við upplifum í samskiptum við aðra einstaklinga, ofbeldi einskorðast við  takmörkun á frelsi einstaklings til að vera það sem hann er þar sem hann er. Til eru þrír þættir ofbeldis; andlegt-, líkamlegt- og kynferðislegt, fjallað er frekar um ofbeldi í textanum Mótlæti (https://innsaei.com/motlaeti/) . Þeir sem beita ofbeldi hafa verið og/eða eru beittir ofbeldi. Þetta er tjáning á tilfinnanlegri vanlíðan sem einstaklingurinn hefur engin ráð til að komast út úr sjálfur og fer því oftar en ekki á þá leið að þeir beita aðra því misrétti sem þeir hafa verið beittir, til að fá útrás fyrir vanmáttakenndina, smánina og minnimáttarkenndina sem þeir eru uppfullir af, en í rauninni er þetta eina leiðin sem þeir finna til að biðja um HJÁLP !! Dæmi um mótlæti vegna ofbeldis samkvæmt tilfinningaþáttunum er Vanmáttur, Mismunun, Lítilsvirðing, Ringulreið, Öfund, Afskiptaleysi, Tillitsleysi.

Er við lendum í mótlæti breytast allar forsendur.

Allar breytingar eru breytingar á afstöðu okkar, afstöðu til þeirra gilda sem við teljum okkur valda og þeirrar sjálfsímyndar sem við höfum. Breytingar valda okkur óstöðugleika og óöryggi, leitumst við því alltaf til við að finna fótfestu á ný, en árangurinn við að leita jafnvægis fer eftir þeim tækifærum sem við fáum til að takast á við lífið og hæfninni sem við búum að til að yfirstíga hindranirnar. Það fer eftir mótlætinu, af hvaða toga það er, hvaða takmörkunum það veldur okkur. Er við erum komin ofan í viðjar takmarkana förum við oftar en ekki að dæma, dæma aðstæður, fólk og staði. Dómurinn virðist vera ómeðvituð leið okkar til að ná eitthverju jafnvægi eftir röskun mótlætisins. Dómgreind okkar takmarkast við þá yfirsýn sem við búum við og þann skilning sem við höfum náð. Dómharkan fer eftir því hversu miklum þrýstingi af reynsluþunga við eru undir og hversu mikið við höfum getað undið ofan af okkur af því mótlæti sem við höfum þegar þurft að þola. Þau vinnubrögð sem við höfum lært og tileinkað okkur og það háttarlag sem við ákveðum að sýna öðrum í samskiptum, segir til um mótlætið sem við höfum reynt.  Þegar við áttum okkur á að við erum sjálf mótlæti í lífi samferðfólks okkar erum við gjörn á kenna öðru um en eigin gjörðum, og halda ótrauð áfram uppteknum hætti. Við förum að ávíta aðra fyrir hegðunarbrot sem er öllu að jafnan okkar, við sakfellum fólk fyrir hluti sem hanga á eigin samvisku og förum jafn vel að taka út reiði okkar og ójafnvægi á sakleysingjum og þeim sem minna mega sín. Sorglegasti öfginn af þessari hegðun er að beita aðra ofbeldi, að sigta út brotnustu einstaklingana, upphefja sig yfir tilveru þeirra og gefa sér það vald að níða þá.

Því meira, fjölbreyttara og öfgakenndara sem mótlætið verður og eftir því sem atburðirnir hrannast upp og verða víðfemari, hlöðum við upp í brunn reynslunnar. Eftir því sem þunginn og þrýstingurinn verða meiri, göngum við hoknari og hoknari, þar til að við verðum orðin kengbogin af burðinum. Hreyfigetan verður takmarkaðri á alla vegu og sjónarröndin minnkar all verulega. Að lokum gætum við fundið okkur við það að vera að velkjast um í lífinu, bundin þörfum annarra og hræðilegum örlögum. Við upplifum endalaus áföll eða eymd, með kenndir sem við vitum ekkert hvaðan koma og við skiljum ekkert hvert eða hvort við séum að fara. Margir taka þá á það ráð að hlaupa áfram í skilyrtu kapphlaupi innan samfélagsins ef það val stendur til boða, finna sér leiðir til að upphefja gengdarlausan sjálfsflóttann og fara jafnvel að bregða fótum fyrir aðra eða draga stól fyrir dyrnar. Aðrir setja upp vinnugrímu og valsa um með verkfærin sín til allsherjar vellíðunar og grósku í von um andlega upphefð og farsæld, ef ekki í sína þágu þá í þágu annarra eða jafnvel afkomenda. Á meðan koðna aðrir niður við það að bíða eftir lífsbjörginni, undir stöðugri áminningu um vesæld og niðurníðslu, reyna að standast ánauðina, átroðninginn og andnauðina. Að lokum eru flestir orðnir það týndir í reynsluhamnum, lygavef eigin blekkinga og annarra, orðnir svo skilningssljóir, máttvana og lífvana að þeir sjá vart fram úr augunum, jafnvel orðnir heyrnasljóir á síbylju skilyrðinga, þöglir vegna stöðugs flökurleika jafnvel rúmliggjandi og síverkjaðir vegna uppgjafar og yfirþyrmandi þreytu.

Við finnum okkur ávallt í tilfinnanlegri afstöðu gagnvart öllum hlutum, athöfnum og stöðum, gagnvart öllum verum, dýrum og öllu samferðafólki okkar. En þrátt fyrir það getur þetta sjötta skilningarvit ruglað okkur meira en önnur skilningarvit þar sem við eigum erfiðara með að átta okkur á hvað við erum að skynja, greina það og útskýra hver upplifunin er. Má það rekja til þess að við höfum verið skilyrt af harðstjórum semfélagana í gegnum tíðina með líkamsmeiðingum, þrældómi og líflátum til að samþykkja að þeirra skoðun sé sú eina rétta. Og oftar en ekki er þeirra skoðun sú að upplifanir og tilfinningar skipta litlu nema um herkænsku og óttastjórnun sé að ræða. En þegar kemur að þeirra eigin málum og hagsmunum skiptir ekkert annað máli þó svo að duttlungar séu. Ótta- og ógnarstjórnun er leið til að brjóta markvisst niður sjálfbærni og  sjálfstæði einstaklinga til að skapa mismun milli manna, hópa, til að skapa stéttir, samfélög, trúfélög osvfr. Þar sem aðeins hagsmunir þess sem hæst trónir skipta máli og þeir gefa honum ótakmarkað vald til að misnota aðra í sína þágu, þá fara þeir lægra settu ósjálfrátt að lúta óréttlætinu. Þegar fólk er misrétti beitt og það ásakað um tildrög verknaðarins, tekur fólk oftar en ekki á sig þá sök sem þeim er gefin, þar sem það er ringlað og skilur oft ekki verknaðinn né fær ekki nokkurn tímann að vita orsök hans.

Þar sem búið er að ræna okkur sjálfsálitinu og sjálfstraustinu, þykir okkur lítið til okkar koma nema að við stöndumst þær kröfur sem á okkur eru settar, sinnum skyldum okkar gegn þeim sem ráðandi er og látum lítið á okkur kræla annars. Við erum búin að missa gleðina og útgeislunina og förum frekar með fram veggjum en að leggja okkar af mörkum. Við förum að lítilsvirða eigin getu og pakka saman hugmyndum okkar og tilfinningum. Við förum að trúa því að skilyrðingar harðræðisins séu réttar og  að framkoma þeirra í okkar garð sé réttlát því við erum farin að lifa eftir því að við séum heimsk og óframbærileg, ljót og leiðinleg og eigum því ekkert betra skilið.

Þegar við búum  við slíkt ok og þurfum að lúta slíkri ánauð í gegnum kynslóðir, jafn vel í ár þúsundir fylgja allir sínum línum og gangast við því hlutverki sem þeim var úthlutað í sínum hópi (hópar eru aldur, fjölskyldur, stöður, stéttir, samfélög og/eða þjóðfélög). Allir eru orðnir skilyrtir í sinn dálk og fæstir þora að andmæla hæðstráðanda þar sem hann eys úr skálum reiði sinnar með tilheyrandi áníðslu við hið minnsta mótlæti. Allir stíga dansin og gleðjast með gleðiefnum í þökk fyrir að eiga ekki eins erfitt og nærtækur viðmiðunarhópur.   Og ef við viljum komast úr þessu skilyrta mynstri, erum við gjörn á að fara yfir í næsta hóp og kenna honum hvernig á að takast á við lífið og tilveruna að okkar upplagi, í sjálfsflótta frá því að geta ekki tekist á við eigin raunir í eigin hópi, í hræðslunni við að verða viðskilja, útundan, útskúfuð, ein og yfirgefin.

Er harðræðinu léttir förum við oftar en ekki tvær leiðir, önnur er sú að það versta er yfir staðið og reynum að finna gleðina í athöfnum sem veita okkur öryggiskennd og reyna að láta sem ekkert hafi í skorist, hin er að fyllast bræði og láta aðra finna til þess sem við höfum þurft að þola. Þessar tvær leiðir geta allt eins verið tveir einstaklingar, hleðst þá oftar en ekki upp hleðsla á milli þessara þátta þeirra sem er aðeins jöfnuð út með afhleðslu á einn eða annan máta sem er oftast í einhverju formi af ofbeldi.

Tilfinningaviðbrögð okkar eru til komin af margvíslegum ástæðum, þær eru í grunninn leið til tjáningar á þeirri tilfinnanlegu upplifun sem við höfum orðið fyrir, þau geta einnig verið varnar- eða sóknarviðbrögð gegn áreiti og erfiðri reynslu. Sík viðbrögð geta oft talist til skyndihvata, hvata sem leiða okkur til tafarlausrar framkvæmdar knúinni af ótta, reiði og jafnvel örvinglan. Þau geta einnig leitt okkur í Tilvistartóm sem er afurð sálarkreppu, þar sem kreppt hefur mjög að svigrúmi okkar til tjáningar á tilfinningum og úrvinnslu á tilfinningaupplifunum svo að við finnum okkur vera tilfinningadofin og allt að tilfinningatóm í Tilfinningatómi. Er svo er komið förum við fyrir alvöru að taka þátt í leikritinu þar sem allir setja sig í hlutverk, og flestir í fleiri en eitt. Eftir því sem við verðum betri í hlutverkaleiknum því kræfari verðum við og förum að fórna ýmsu til að skapa trúverðugleika. Á endanum erum við svo týnd í leiknum að við trúum því að þessi leikur sé sannleikur.

Er okkur finnst botninum náð förum við oftast að hugsa okkur til hreyfings upp úr reynslupyttinum. Þá eru oftar en ekki eitthvað eða einhver sem hreyfir við okkur og hjálpar okkur til að spyrna í botninn og gefa okkur meðbyr þann sem við þurfum til að byrja að mjakast áfram, upp á við. Góðir hlutir gerast hægt og oftar en ekki einblínum við á einn þátt vandans á meðan við tökumst stöðugt á við fleiri þætti hans. Við verðum því komin á ágætis ferð upp á við áður en við vitum af og fyllumst af von og eldmóði, þar til við rekumst á fyrirstöðu sem dregur úr okkur. Þurfum við þá að leita leiða til að ná aftur dampi á langri leiðinni upp á við, til jafnvægis.

Það er misjafnt hvert reynslan leiðir okkur, það fer eftir því hversu langt við sjáum fram á veginn og hvernig umhverfið blasir við okkur er við leitum leiða til að komast áfram.

Er við finnum okkur í viðjum langvarandi vanlíðunar leitum við alltaf leiða til að létta henni, að komast frá ójafnvægi til jafnvægis. Það eru til margar misjafnar leiðir, og vegna þess hversu misjafnir einstaklingar við erum og hversu misjafn sjónarhorn okkar er eru þarfir okkar misjafnar þó að við tökum á svipuðum vanda.

Þess vegna þurfum við sem einstaklingar að átta okkur á hvaða lausnir henta okkur best sem þær verur sem við erum miðað við þá stöðu sem við erum í gagnvart hópnum sem við teljum okkur tilheyra og umhverfinu sem við lifum í. Með því hugarfari að komast úr ójafnvæginu aftur til jafnvægis við okkur sjálf.

Því er besta leiðin að kafa inn á við, byrjunin væri að skoða eigið mynstur, hegðunarmynstur í dags daglegum athöfnum, átta okkur á hvað við erum sátt við og hvað við erum ósátt við. Við getum einnig skoðað staðina sem við sækjum og fólkið sem við hittum, hvort við finnum samhljóm með fólkinu, líki við staðinn, finnum okkur betur við eina athöfn en aðra osvfr.

Þar sem tilfinningar eru staðalbúnaður okkar sem lífveru hafa allir tilfinningar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s